7 ókeypis fjölskyldudagar á Selfossi og nágrenni

Áborg springur út eins og vorblóm þessa dagana. Nýtt fólk flyst í fallegu bæina okkar og enn fleiri ferðast og staldra við í lengri eða skemmri tíma. Því er ekki úr vegi að kynna heila viku af afþreyingu sem hægt er að bralla með fjölskyldunni í Árborg og nágrenni.

 

Sunnudagur: Skógræktin á Eyrarbakka hefur verið í miklum vexti undanfarið og því ekki úr vegi að kíkja þangað. Þar er hægt að finna og skoða ýmsar plöntur og vel hægt að finna efnivið til að föndra með á svæðinu eða þegar heim er komið. Búa til pensla úr mismunandi laufum eða greinum. Þurrka blóm og lauf. Gera óróa úr fallegum hlutum úr skógarferðinni. Svo má auðvitað sýna hvernig síminn getur verið kennslutól en ekki bara fyrir leiki og tónlist með því að „gúggla“ hinar og þessar plöntur sem þið sjáið á leiðinni.

Þá má fara í blómakransakeppni, teikna mismunandi blóm og tré, skordýr eða annað sem þið finnið í ferðinni.

 

Mánudagur: Á Selfossi var verið að opna folf völl við Gesthús, en það er í stuttu máli frisbí með golf reglum. Í folfi er hægt að velja mis hraðfara diska en það má að sjálfsögðu nota sinn eigin, gamla góða. Á folfvöllum má vera með meiri læti og kjánaskap en á golfvöllum en grasið er ekki jafn oft slegið því þeir eru oftar en ekki settir niður í náttúrulegu umhverfi. Allir í fjölskyldunni geta keppt saman og farið á sínum hraða í gegnum brautina.

Eftir útivistina getur verið gaman að kíkja á bókasafnið, setjast niður og glugga í blöð og bækur. Jafnvel glugga í glugga því þar eru oft skemmtilegar útstillingar og/eða sýningar í gluggunum.

Á Hafnarplaninu, gengt Ölfusárbrú, er skemmtileg ljósmyndasýning sem prýðir minningar úr fortíðinni. Þessi sýning er áhugaverð fyrir alla og getur velt upp miklum umræðum um aðstæður og líf þá og nú. Þaðan er hægt að ganga niður að brúarstólpa, Tryggvaskálamegin, og sjá hversu hátt Ölfusá hefur flætt gegnum árin.

Þar er líka góður göngustígur sem liggur frá kirkjunni og upp með ánni. Endilega skoðið katlana sem mynduðust þegar þjórsárhraunið rann.

 

Þriðjudagur: Stokkseyri státar af frábærri fjöru. Þar er hægt að ganga fjöruna frá bryggjunni í átt að Eyrarbakka en feta stíginn uppi á varnargarðinum til baka. Þar með er fjöruferðinni ekki lokið, heldur skaltu keyra lengra og finna grófu sjópollana, þeir eru sjávarhluti Þjórsárhrauns og eru handan sjóvarnargarðanna austan við bæinn. Á stórstraumsfjöru sést hvar aldan brotnar á hraunjaðrinum langt úti fyrir ströndinni.  Selir? Já það eru selir. Í fjörunni er líka hægt að veiða hornsíli og krabba og finna fallega kuðunga og skeljar.

 

Miðvikudagur: Smalaðu hópnum upp í bíl, nú er stefnan tekin á Hveragerði. Steinasýningin í Hveragerði er staðsett við rauða bensínstöð og þar má aldeilis skoða gull og gersemar ...nema ekki gull ..hugsanlega glópagull! Jæja, í það minnsta gullfallega steina. Vertu viðbúin/n að heyra mikið af „Vá, sjáðu!“. Líkurnar á persónulegu steinasafni úti í garði munu aukast til muna – sem og götóttir vasar.

Listasafn Árnesinga er öllum opið, alla daga sumars – sjaldnar yfir hinar árstíðirnar. Síbreytilegar og skemmtilegar sýningar og þægilegt andrúmsloft. Skilurðu ekki list? Það er allt í góðu, það er samt umræðuefni út af fyrir sig og fín byrjun.

Í Hveragerði er vinsælt að ganga upp Reykjadal og baða sig í heita læknum. Gangan upp að honum tekur um það bil rúma klukkustund, allt eftir því hversu smáir fætur ganga og það er snjallast að vera í baðfötunum innanundir því þar er engin búningsaðstaða. Ég veit svosem ekki hvernig fólk fer uppúr – kannski gengur það bara rassblautt niðureftir? Endilega látið mig vita.

Yngstu fjölskyldumeðlimirnir gætu haft meiri áhuga á að vesenast á litríkum þúfum í smágörðunum eða að narta í gúrku í Skrúðgarðinum.

 

Fimmtudagur: Fimmtudagur til fjallgöngu segir tengdapabbi alltaf. Reyndar segir hann það um alla vikudagana og það er engin leið að fara samferða honum á fjöll, hann er of mikil fjallageit. Fjall er svosem afstætt hugtak, það sem eitt sinn var fjall er núna hóll en verður aftur fjall þegar ættleggurinn endurnýjast. Eftir aldri og áhuga er hægt að ganga á Kögunarhól, Silfurberg eða Ingólfsfjall. Mundu eftir vatninu og nestinu!

Þrastalundur er ekki bara staður fyrir snappara að fara í brunch heldur má þar ganga um ilmandi birkiskóg (Skóg? Lund? Svæði allavega!). Ekkert toppar ilminn af birki eftir rigningu, vonandi rigndi um morguninn, annars ferðu bara aftur seinna. Skógurinn í kring heitir Þrastarskógur (takið eftir auka R-inu – engum virðist bera saman um stafsetninguna á svæðinu – þetta eru einhverskonar álög!)  en Ungmennafélag Íslands eignaðist svæðið árið 1911! Þar eru margir göngustígar meðfram Soginu og hugsanlega er tjaldstæði þarna, fólki ber ekki saman um það frekar en blessað R-ið. 

Úrþví þið eruð komin í Þrastalund er ekki úr vegi að halda áfram að Ljósafossstöð. Þar er hægt að fara á gagnvirka orkusýningu og sjá hvað í manni býr ...bókstaflega. Hvað felst mikil orka í þinni eigin þyngd, styrk eða afli? Þar má líka læra hvernig fólk getur virkjað krafta náttúrunnar.  Munið bara að hringja á undan ykkur. 

 

Föstudagur: Þá er mál að smala fjölskyldunni í fuglaskoðun. Í Friðlandinu á Eyrarbakka er gott aðgengi að fuglaskoðunarkofa þar sem fólk getur komið og fylgst með fuglalífinu en reynið að fara bestu og greiðustu leiðina að kofanum til að styggja ekki fuglana. Þarna má einmitt þjálfa börnin í að vera hljóðlát og passa sig að stíga ekki í hreiður. Þá er hætta á að næsti fugl komi og gefi þeim orma að borða. Svæðið er Friðland og þar verpa nærri 25 tegundir að staðaldri. Fuglaskoðunarkofinn er stór og rúmar margar manneskjur – en skiljið elsku hundana eftir í bílnum í þetta sinn.

Leyfið þeim frekar að hlaupa með börnunum í fjörunni á Eyrarbakka þegar þið eruð búin í Friðlandinu. Það er aldeilis stór og falleg fjara. Ég fann höfuð af hrúti ..einu sinni .. þarna í flæðarmálinu, hver veit hvað þið gætuð fundið. Kannski gullkistu eða gamlan skó. Allt er ævintýri!

 

Laugardagur: Vissir þú af hellinum á Selfossi? Ójá, þetta er ein besta endastöð ratleikja fyrir börn á öllum aldri. Í Stóra helli er hægt að fela allskyns góss, súkkulaði eða pylsur sem eitthvað tröll hefur hugsanlega gleymt eða skilið eftir. Hellirinn er í Hellisskógi en þar er einnig virkilega falleg og virkilega smávaxin vík þar sem hægt er að vaða í vatnsmestu á landsins og þar er að auki tilvalinn staður fyrir lautarferð. Eina vesenið er að ákveða hvort þið viljið borða í hellinum eða við víkina.

Laugardagar eru laugar-dagar, hví ekki að skola sig eftir þessa viðburðaríku viku. Frítt í sund í Árborg fyrir Árborgarbörn.

 

 

Skoðið www.leikjavefurinn.is fyrir fleiri leiki og þrautir.  

 Kastið á okkur kveðju á Kastalasnappinu ef þið njótið þess að fara á þessa staði! 

Snapp: Kastalinn